Íslenska brugghúsabyltingin
Smábrugghúsabylting síðustu þriggja áratuga felur í sér einhverja mestu breytingu í mörgþúsund ára sögu bjórsins. Bylting þessi hófst í Bandaríkjunum, þar sem smábrugghús fóru að skjóta upp kollinum á níunda áratugnum með metnaðarfullu og frumlegu bjórúrvali. Hreyfing þessi náði til Evrópu um aldamótin 2000 og þá var ekki langt að bíða uns Íslendingar rönkuðu við sér.
Fyrsta íslenska smábrugghúsið, Kaldi, opnaði á Árskógssandi árið 2006. Það vakti athygli strax í upphafi fyrir framleiðslu á hágæða lagerbjór í tékkneskum stíl, sem féll Íslendingum vel í geð. Athyglisvert er að flest íslensku smábrugghúsin eru stofnuð á landsbyggðinni, þótt bjóráhugamenn séu e.t.v. fjölmennari á höfuðborgarsvæðinu. Skýrist það meðal annars af því hversu mikilvægt það er fyrir smábrugghús að hafa traustan hóp viðskiptavina í heimahéraði.
Eftir að Kaldi reið á vaðið hafa fjölmargir framleiðendur fylgt í kjölfarið. Ölvisholt, sem staðsett er rétt austan við Selfoss, var stofnað árið 2007 og hefur upp frá því gert marga af bestu og framsæknustu bjórum Íslands. Vestlendingar hafa átt sín brugghús, fyrst Jökul frá Snæfellsnesi og síðar Steðja úr Borgarfirðinum. Skagfirðingar eiga sömuleiðis brugghúsið Gæðing og grannar þeirra á Siglufirði brugga undir heitinu Segull.
Margt bendir til að Íslendingar standi frammi fyrir nýrri bylgju smábrugghúsa, þar sem fjölmargir aðilar víða um land hafa lýst áhuga á að stofna brugghús, t.d. með aðstoð hópfjármögnunar á netinu. Þá hefur borið á því að einstakir veitingastaðir framleiði sinn eigin bjór til að skapa sér sérstöðu, en bandaríska smábrugghúsabyltingin byggðist að miklu leyti á brugghúsveitingastöðum af þessu tagi.